Heimir Guðjónsson verður áfram þjálfari Vals á næstu leiktíð. Þetta staðfestir Börkur Edvardsson formaður knattspyrnudeildar Vals í samtali við 433.is í dag.
Miklar vangaveltur hafa verið í kringum framtíð Heimis eftir slakt gengi í deildinni undanfarið. Sögurnar fóru svo á flug eftir að Valur tapaði gegn Vestra í bikarnum í vikunni.
„Það verða engar breytingar, það er 100 prósent,“ sagði Börkur Edvardsson í stuttu samtali við 433.is í dag.
Heimir er að klára sitt annað tímabil sem þjálfari Vals og verður áfram í starfi á næstu leiktíð. Heimir er sigursælasti þjálfari Íslands í seinni tíð.
Heimir stýrði FH um langt skeið en yfirgaf félagið árið 2017 og hélt þá til Færeyja í tvö ár þar sem hann varð meðal annars meistari sem þjálfari HB.
Heimir tók svo við Val fyrir tæpum tveimur árum og gerði Val að Íslandsmeistara árið 2020 en gengi sumarsins hefur verið vonbrigði.