Lárus Orri Sigurðsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, gefur lítið fyrir það sem Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska A-landsliðs karla, sagði um erfiðleika sína í starfi undanfarið.
Stormur hefur verið í kringum Knattspyrnusambandið. Það hefur verið sakað um að hylma yfir meint kynferðisbrot. Stjórnin, sem féll svo, bannaði Arnari að velja leikmenn í hópinn.
„Ég þurfti nánast að spila leikina sjálfur því margir leikmenn voru ekki til staðar. Þegar ég tók við í desember var ég með draumalið á blaði en nú er staðan breytt,“ segir Arnar í viðtalinu og Fótbolti.net segir frá.
Arnar segir í viðtalinu möguleika á því að reyndir leikmenn hafi spilað sinn síðast landsleik. Arnar var spurður út í málefni Gylfa Þórs Sigurðssonar, hann er laus gegn tryggingu í Bretlandi á meðan mál hans er til rannsóknar.
„Ég get ekki tjáð mig um það mál. Sem þjálfari þá sakna ég þess að hafa mína Kevin De Bruyne og Eden Hazard í íslenska liðinu. Frá draumaliðinu sem ég var með á blaði eru bara tveir eftir,“ sagði Arnar en ætla má að um sé að ræða Birki Bjarnason og Jóhann Berg Guðmundsson.
„Ég skil gagnrýnina en ég hef ekki svörin. Formaðurinn er farinn, stjórnin er farin. Ég ráðlegg mig við yfirmann fótboltamála. Og sá maður er ég sjálfur. Þetta hefur verið stormur og ég var í honum miðjum. Ég þurfti skyndilega að svara fjölmiðlum en ég gat eki gefið svörin. Á sama tíma þurfti ég að undirbúa leiki,“ sagði Arnar einnig í viðtalinu.
Lárus segist gera sér grein fyrir því að verkefni Arnars sé erfitt, þjálfarinn verði hins vegar að takast á við stöðuna eins og hún er í dag.
,,Cry me a river. Erfið staða og erfitt verkefni? Ekki spurning, en er þetta ekki orðið fínt af þessum grátkór hjá landsliðsþjálfaranum/yfirmanni knattspyrnumála. Svona er staðan í dag deal with it and get on with the job,“ skrifaði Lárus á Twitter.
Cry me a river. Erfið staða og erfitt verkefni? Ekki spurning, en er þetta ekki orðið fínt af þessum grátkór hjá landsliðsþjálfaranum/yfirmanni knattspyrnumála. Svona er staðan í dag deal with it and get on with the job https://t.co/XOHIBaBI4x
— Lárus Sigurðsson (@larussig) September 14, 2021