Breiðablik tók á móti Val í sannkölluðum toppslag í efstu deild karla í fótbolta í kvöld. Leikið var á Kópavogsvelli.
Það var nokkuð jafnt með liðunum framan af og markalaust í hálfleik.
Blikar fengu svo víti á 61. mínútu eftir mikið klúður í varnarleik Valsverja og Árni Vilhjálmsson fór á punktinn og skoraði örugglega fram hjá Hannesi í markinu.
Blikar voru mikið sterkari aðilinn eftir að hafa komist í forystu og bættu við öðru marki tíu mínútum síðar þegar að Kristinn Steindórsson skoraði eftir góðan undirbúning frá Jasoni Daða.
Árni Vilhjálmsson kórónaði frábæra frammistöðu Breiðablik með öðru marki sínu í leiknum og þriðja marki Blika þegar að fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Þar við sat og lokatölur 3-0.
Breiðablik situr nú á toppi deildarinnar með 44 stig þegar að tvær umferðir eru eftir. Víkingar eru í 2. sæti með 42 stig og KR í því 3. með 38 stig.
Ljóst er að Valsverjum tekst ekki að endurheimta titilinn í ár en liðið er í 5. sæti með 36 stig.