IFK Gautaborg hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að Kolbeinn Sigþórsson verði ekki með liðinu á næstunni.
Kemur fram að Kolbeinn fái hvorki að æfa né spila með liðinu á meðan málefni hans eru skoðuð. Um er að ræða ótímabundið leyfi.
„Rannsókn félagsins hefur farið af stað til að taka ákvörðun um framhaldið,“ segir á vef félagsins.
Um er að ræða málefni sem verið hafa til umfjöllunar á Íslandi síðustu daga, Kolbeini er gefið að sök að beitt tvær konur ofbeldi og áreitt þær kynferðislega.
Kolbeinn hafnar allri sök um ofbeldi en viðurkennir að hafa hagað sér ósæmilega. „Ég kannaðist ekki við að hafa áreitt þær eða beitt ofbeldi og neitaði sök. Hegðun mín var hins vegar ekki til fyrirmyndar og baðst ég afsökunar á henni. Ég iðraðist og tók á því ábyrgð og var tilbúinn að leita sátta. Þær höfðu uppi kröfu um afsökunarbeiðni og greiðslu sem ég féllst á. Auk þess greiddi ég 3 milljónir króna til samtakanna Stígamóta og studdi þannig mikilvæga baráttu samtakanna gegn kynferðisofbeldi,“ sagði Kolbeinn í yfirlýsingu í vikunni.
Framherjanum var bannað af stjórn KSÍ að mæta í landsliðsverkefni sem nú er í gangi vegna málsins og nú ætlar sænska félagið að skoða málefni hans. Á meðan málið er skoðað verður Kolbeinn í leyfi.