Knattspyrnudeild Gróttu og Ágúst Gylfason, þjálfari meistaraflokks karla hjá félaginu, hafa ákveðið í sameiningu að Ágúst láti af störfum fyrir félagið eftir að yfirstandandi keppnistímabili lýkur.
Ágúst tók við liðinu haustið 2019 og stýrði því í Pepsi Max deildinni tímabilið 2020, en félagið var þá í fyrsta skipti í sögunni í deild þeirra bestu. Þótt Grótta hafi fallið úr deildinni, stóð liðið sig vel við erfiðar aðstæður í miðjum heimsfaraldri.
„Á yfirstandandi keppnistímabili í Lengjudeild karla hefur Gróttuliðið leikið vel og árangurinn ágætur, þótt herslumun hafi vantað svo liðið blandaði sér af fullum þunga toppbaráttu deildarinnar. Ágúst Gylfason hefur reynst Gróttu vel frá því hann tók við haustið 2019 og skilur við liðið á góðum stað. Félagið mun að tímabilinu loknu kveðja Ágúst með virktum og söknuði og óskar honum velfarnaðar í öllum hans störfum í framtíðinni,“ segir í yfirlýsingu félagsins.