Njarðvík fór illa með Hauka í 18. umferð 2. deildar karla í kvöld. Leikið var í Njarðvík.
Bergþór Ingi Smárason kom heimamönnum yfir á 11. mínútu. Arnór Pálmi Kristjánsson jafnaði fyrir Hauka á 27. mínútu.
Í lok fyrri hálfleik fékk Terrance William F. Dieterich, markvörður Hauka, rautt spjald. Hinn ungi Indrit Hoti kom í markið í hans stað og lék seinni hálfleikinn. Þar voru Haukar, eins og gefur að skilja, manni færri.
Njarðvíkingar gengu á lagið og komust í 2-1 á 51. mínútu með marki Conner Jai Ian Rennison.
Magnús Þórðarson kom heimamönnum í 3-1 20 mínútum síðar. Aron Snær Ingason skoraði fjórða mark Njarðvíkinga á 82. mínútu.
Hlynur Magnússon skoraði svo tvö mörk í lok leiks. 6-1 sigur Njarðvíkur staðreynd.
Njarðvík er nú í fjórða sæti með 29 stig, 5 stigum á eftir KV í öðru sæti. Fjórar umferðir eru eftir.
Haukar eru í níunda sæti með 19 stig, 8 stigum fyrir ofan fallsæti.