Tveir leikir fóru fram í Pepsi Max deild karla í kvöld. KR og Breiðablik gerðu 1-1 jafntefli á Meistaravöllum en FH vann mikilvægan sigur á Fylki á heimavelli.
Kjartan Finnbogason kom KR-ingum yfir á 48. mínútu með stoðsendingu frá Pálma Rafni Pálmasyni. Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði hins vegar metin fyrir Breiðablik á 67. mínútu sem heldur áfram góðu gengi sínu í deildinni.
Breiðablik situr í 2. sæti með 23 stig eftir 12 leiki, fjórum stigum á eftir Val og með leik til góða. KR er í 4. sæti með 22 stig eftir 13 leiki.
FH vann mikilvægan sigur á Fylki á Kaplakrika í hinum leik kvöldsins. Steven Lennon gerði eina mark leiksins á 78. mínútu. FH hóf leikinn í 10. sæti, tveimur stigum frá fallsæti, en með sigrinum fer liðið upp fyrir Fylki í 6. sæti deildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki. Fylkir er í 7. sæti með 14 stig eftir 13 leiki.
Úrslit kvöldsins:
KR 1 – 1 Breiðablik
1-0 Kjartan Finnbogason (’48)
1-1 Höskuldur Gunnlaugsson (’67)
FH 1 – 0 Fylkir
1-0 Steven Lennon (’78)