Smit er komið upp í herbúðum Fylkis í meistaraflokki karla í knattspyrnu, leikmaður liðsins greindist smitaður í dag og fer fjöldi leikmanna liðsins í sóttkví. Þetta staðfesti Kjartan Daníelsson formaður knattspyrnudeildar Fylkis við 433.is í kvöld.
Umræddur leikmaður fór í sýnatöku í dag og fékk þar staðfest að hann bæri veiruna, Kjartan taldi að tæplega 15 einstaklingar færu í sóttkví vegna málsins. Um er að ræða bæði leikmenn og starfslið.
Leikmennirnir sem fara í sóttkví verða þar til þriðjudags og fara þá í próf, leikmenn sem ekki eru fullbólusettir fara í sóttkví. Hluti af leikmannahópi Fylkis hafði fulla bólusetningu og fara þeir því ekki í sóttkví.
Umræddur leikmaður kom við sögu í leik Fylkis gegn Val um liðna helgi en enginn úr herbúðum Vals fer í sóttkví. Allir leikmenn Vals hafa fengið fulla bólusetningu, það staðfesti Heimir Guðjónsson í samtali við 433.is í kvöld.
Fylkir átti að mæta HK um næstu helgi í efstu deild karla en ljóst er að þeim leik verður frestað. Hvorugt liðið tekur þátt í Evrópukeppni og því ljóst að smitið raskar mótinu ekki á neinn hátt.