Tveimur leikjum er nýlokið í 7. umferð Lengjudeildar karla.
Fullt af mörkum í Mosó
Afturelding fékk Selfoss í heimsókn. Úr varð fjörugur leikur sem lauk með jafntefli.
Pedro Vazquez Vinas skoraði tvö mörk fyrir heimamenn snemma leiks. Það fyrra á 8. mínútu og það seinna um þremur mínútum síðar.
Gary Martin svaraði fyrir Selfyssinga. Hann minnkaði muninn á 23. mínútu og jafnaði 20 mínútum síðar. Staðan í hálfleik var 2-2.
Ingvi Rafn Óskarsson kom gestunum yfir um miðjan seinni hálfleik. Kári Steinn Hlífarsson jafnaði leikinn fyrir Aftureldingu þegar tíu mínútur lifðu leiks. Lokatölur urðu 3-3.
Afturelding er í níunda sæti deildarinnar með 6 stig. Selfoss er sæti neðar með stigi minna.
Grindavík kláraði Gróttu í uppbótartíma
Grindavík tók á móti Gróttu. Heimamenn unnu sigur þrátt fyrir að lengi hafi stefnt í jafntefli.
Sigurður Bjartur Hallsson kom Grindvíkingum yfir á 39. mínútu. Staðan í hálfleik var 1-0.
Pétur Theódór Árnason jafnaði fyrir gestina um miðjan seinni hálfleik. Á 85. mínútu fékk Arnar Þór Helgason, í liði Gróttu, sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Það virtis hafa slæm áhrif á liðið því þeir fengu á sig tvö mörk í uppbótartíma. Fyrst kom Sigurjón Rúnarsson Grindavík yfir. Sigurður Bjartur skoraði svo sitt annað mark úr víti í blálokin. Lokatölur 3-1.
Grindavík er komið upp í annað sæti deildarinnar með 15 stig. Græotta er í sjöunda sæti með 8 stig.