Tveimur leikjum er nýlokið í Pepsi Max-deild karla. Leikirnir voru hluti af 12. umferð þrátt fyrir að ekki næstum því svo margir leikir hafi verið leiknir.
Valur vann stórleikinn
Valur tók á móti Breiðabliki á Origo-vellinum. Heimamenn unnu góðan sigur.
Valur komst yfir um miðjan fyrri hálfleik þegar Damir Muminovic skoraði sjálfsmark. Stuttu fyrir leikhlé bætti Patrick Pedersen við öðru marki heimamanna. Staðan í hálfleik var 2-0.
Um miðjan seinni hálfleik gerði Guðmundur Andri Tryggvason út um leikinn fyrir Val með marki.
Árni Vilhjálmsson klóraði í bakkann fyrir blika á 77. mínútu með marki af vítapunktinum. Lokatölur 3-1.
Valur er kominn aftur á topp deildarinnar með 20 stig. Þeir eru með tveggja stiga forskot á Víking sem á þó leik til góða. Blikar eru í fimmta sæti með 13 stig.
Jafnt í Hafnarfirði
FH tók á móti Stjörnunni í Kaplakrika. Leiknum lauk með jafntefli.
Jónatan Ingi Jónsson kom heimamönnum yfir á 18. mínútu. Einar Karl Ingvarsson jafnaði um tuttugu mínútum síðar. Staðan í hálfleik var jöfn.
Hvorugu liðinu tókst að finna sigurmark í seinni hálfleiknum. Lokatölur 1-1.
FH er í sjötta sæti deildarinnar með 11 stig eftir átta leiki. Stjarnan er í níunda sæti með 7 stig eftir níu leiki.