Breiðablik tók á móti Fylki í 8. umferð Pepsi Max-deildar karla í dag. Heimamenn unnu sigur.
Fyrri hálfleikur var rólegur og var markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja í leikhlé.
Heimamenn fóru svo langt með að klára leikinn á stuttum kafla í byrjun seinni hálfleiks. Fyrst kom Árni Vilhjálmsson þeim yfir á 46. mínútu eftir sendingu inn fyrir vörn gestanna frá Kristni Steindórssyni.
Blikar tvöfölduðu svo forystu sína á 54. mínútu. Þá skoraði Viktor Karl Einarsson. Hann skoraði eftir að hafa fylgt eftir skoti Gísla Eyjólfssonar sem fór í stöngina.
Breiðablik sigldi sigrinum svo í höfn. Lokatölur urðu 2-0 í Kópavogi.
Blikar fara upp í fjórða sætið með sigrinum. Þeir eru með 13 stig eftir sjö leiki. Fylkir er í áttunda sætinu. Þeir eru með 7 stig eftir að hafa leikið átta leiki.