Alex Freyr Elísson leikmaður Fram er í viðræðum við Víking um að ganga í raðir félagsins í haust. Þetta staðfesti Arnar Bergmann Gunnlaugsson í samtali við 433.is í dag.
Alex Freyr verður samningslaus í haust og því hefur Víkingur leyfi til þess að ræða við hann með það fyrir auga að semja við hann.
Fram er á toppi Lengjudeildarinnar en Alex Freyr er fæddur árið 1997 og getur spilað sem bakvörður og kantmaður. Hann hefur komið við sögu í öllum fjórum leikjum Lengjudeildarinnar í sumar.
Alex Freyr hefur spilað 84 leiki fyrir Fram í deild og bikar á ferli sínum og skorað í þeim níu mörk. Hann lék sína fyrstu leiki árið 2015.
Samkvæmt heimildum 433.is hefur Fram einnig áhuga á að halda í Alex en óvíst er hvaða skref hann tekur.