Markvörðurinn Ólafur Íshólm Ólafsson var til umræðu í markaþætti Lengjudeildarinnar á Hringbraut í gær. Hann hefur farið virkilega vel af stað með toppliði Fram í Lengjudeildinni.
,,Við sjáum Ólaf Íshólm taka bolta eftir bolta. Hversu góður markmaður hann er orðinn þarna hjá Fram. Var í einhverjum smá vandræðum hjá Fylki, fer í Breiðablik og fær ekkert að spila, kemur þarna í Fram og gjörsamlega verið frábær síðustu tvö tímabil,“ sagði Hörður Snævar Jónsson, þáttastjórnandi
Ólafur, sem kom til Fram frá Breiðablik fyrir tímabilið 2019, hefur tvisvar sinnum haldið hreinu í fyrstu fjórum leikjum sumarsins í Lengjudeildinni. Hann hefur í heildina fengið á sig þrjú mörk. Hrafnkell Freyr Ágústsson, sérfræðingur í þættinum, tók í sama streng og Hörður.
,,Hann er frábær. Hann er með hæð og ‘presence’ í teignum, góður ‘shot-stopper’ og það er mikið í hann spunnið.“
Fram er á toppi deildarinnar með 12 stig, 3 stigum á undan Fjölni.
Hér fyrir neðan má horfa á markaþátt Lengjudeildarinnar.