Kun Aguero kvaddi Manchester City með stæl eftir tíu ára dvöl hjá félaginu, Aguero reif fram tæpar tíu milljónir íslenskra króna til að kaupa gjafir fyrir starfsfólk félagsins áður en hann kvaddi.
AGuero keypti úr handa öllum þeim 60 starfsmönnum sem koma að liðinu á bak við tjöldin. Um var að ræða Tag Heuer úr og lét hann grafa í það ´Takk fyrir, Kun Aguero´.
Framherjinn var ekki hættur þar því hann hafði nýlega keypt sér Range Rover Evoque bifreið í Manchester sem hann tekur ekki með sér til Barcelona.
Hann setti því nöfnin á öllum þessum starfsmönnum í pott og ákvað að gefa einum heppnum bílinn, búningastjóri félagsins var sá heppni samkvæmt frétt The Athletic. Aguero var ánægður með það enda hafði umræddur maður reynst honum afar vel.
Aguero gekk í gær í raðir Barcelona en hann setti einnig mikla fjármuni í pott til þess að jólagjafir starfsmanna í ár verði veglegar.