Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, miðjumaðurinn öflugi, spilaði sinn síðasta leik fyrir Breiðablik í stórsigrinum gegn Val. Hún er gengin til liðs við Houston Dash í bandarísku atvinnumannadeildinni, NWSL.
Breiðablik og Houston Dash náðu samkomulagi um félagaskiptin í vetur, hluti af samkomulaginu var að Andrea myndi hefja mótið með Breiðablik og spila út maí.
Andrea Rán byrjaði að æfa hjá Breiðabliki sex ára gömul og hefur á ellefu ára löngum meistaraflokksferli spilað 188 leiki og skorað 31 mark fyrir Breiðablik í öllum keppnum. Hún fór á láni til Le Havre í Frakklandi í vetur en sneri aftur í Kópavoginn í vor og spilaði alla fimm deildarleiki Blika það sem af er tímabili.
Hún hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari með Breiðabliki ásamt því að verða bikarmeistari í þrígang. Andrea Rán, sem á tíu A-landsleiki að baki, hefur síðustu ár verið í námi í Bandaríkjunum á veturna og spilað með Blikum á sumrin, en nú tekur hún næsta skref í atvinnumannadeildinni vestanhafs.