Íslenska landsliðið er komið aftur til landsins eftir ferðalag til Bandaríkjanna. A-landslið karla sýndi góða frammistöðu þrátt fyrir eins marks tap í vináttulandsleik gegn Mexíkó í Dallas um helgina. Birkir Már Sævarsson kom íslenska liðinu yfir eftir tæplega stundarfjórðung þegar hann átti vinstrifótarskot sem hafði viðkomu í varnarmanni á leið sinni í markið og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.
Íslenska liðið dvelur hér á landi fram að æfingaleik gegn Færeyjum á fimmtudag en liðið heldur svo þaðan til Póllands. Liðið dvelur í vinnustaðarsóttkví hér á landi.
Mexíkóar sóttu stíft í seinni hálfleik en Andri Fannar Baldursson var nálægt því að koma íslenska liðinu tveimur mörkum yfir eftir skyndisókn. Mexíkóska liðið jafnaði metin eftir þunga sókn á 72. mínútu og tóku svo forystuna á 78. mínútu og var Hirving Lozano, leikmaður Napoli, að verki í bæði skiptin. Ekki voru fleiri mörk skoruð og 2-1 sigur Mexíkó því staðreynd.
Þrátt fyrir tapið lék íslenska liðið þéttan varnarleik líkt og hefur verið einkenni þess síðustu árin. Fjölmargir leikmenn stigu sín fyrstu skref með A landsliðinu og léku vel þrátt fyrir mikil læti í tæplega 40 þúsund stuðningsmönnum Mexíkó. Næstu verkefni liðsins eru vináttuleikir gegn Færeyjum 4. júni og gegn Póllandi 8. júní. Báðir leikirnir fara fram ytra og verða báðir í beinni útsendingu á RÚV.