Eden Hazard ætlar ekki að ganga aftur til liðs við Chelsea þar sem hann vill fá að sanna sig hjá Real Madrid.
Hazard samdi við Real Madrid árið 2019 og hefur tími hans þar verið vonbrigði. Hann hefur verið meiddur stóran hluta tímans og þegar hann spilar hefur hann ekki heillað. Hann hefur aðeins skorað 5 mörk í 43 leikjum fyrir félagið.
Hazard er nú með belgíska landsliðinu í undirbúningi fyrir EM sem hefst 11. júní. Hann tjáði sig um málið á blaðamannafundi í dag:
„Ég er með þriggja ára samning við Real Madrid, það er alveg úr myndinni að fara til Englands,“ sagði Hazard á blaðamannafundi.
„Það vita allir að fyrstu tvö árin mín voru ekki góð, þess vegna langar mig fyrst að sanna mig hjá Real Madrid.“
„Ég þekki sjálfan mig og veit hvenær ég er í formi. Ef svo verður þá get ég gefið allt mitt til Real á næsta tímabili. Það er planið.“