Mauricio del Castillo bróðir Kun Aguero er verulega óhress með Pep Guardiola stjóra Manchester City. Aguero hefur leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.
Eftir tíu ár hjá félaginu ákvað City að framlengja ekki samninginn við Aguero og fer hann frítt til Barcelona.
Castillo setti inn Twitter færslu snemma í gærmorgun en eyddi henni reyndar skömmu síðar. „Guardiola vildi aldrei bróður minn frá því að hann kom til félagsins,“ skrifaði Castillo.
Hann fékk hörð viðbrögð við færslunni og eyddi henni, hann sagði of mikið af reiðu fólki til í samfélaginu. „Ég er ánægður með að fólk hafi séð þetta, ég skrifa hana mögulega aftur einn daginn,“ sagði Castillo.
Aguero mætti til Barcelona í gær eftir tap City í úrslitum Meistaradeildarinnar á laugardag. Hann mun semja við Barcelona til tveggja ára.