Wayne Rooney segir í grein fyrir The Sunday Times að hann hefði gert allt til þess að fá Jamie Vardy til að snúa aftur í enska landsliðið fyrir EM.
Jamie Vardy, leikmaður Leicester, átti enn eitt gott tímabil í ensku úrvalsdeildinni í vetur og þrátt fyrir að vera 34 ára hefur hann ekki sýnt að aldurinn sé farinn að hafa áhrif.
„Ég vildi óska þess að Jamie Vardy væri í liði Gareth Southgate. Ég hefði gert allt til þess að fá hann aftur í landsliðið fyrir þessa úrslitaleiki,“ sagði Rooney í grein sinni í The Sunday Times.
„Ég veit að þetta kemur mörgum á óvart, sérstaklega vegna dómsmálsins sem er á milli konunnar minnar og konu Jamie, en þetta er mín fótboltalega skoðun.“
„Hann er kannski 34 ára, en hann er ennþá stórkostlegur leikmaður og tók þátt í 24 mörkum í deildinni í vetur.“