Mauricio Pochettino hefur tilkynnt PSG að hann vilji yfirgefa félagið í sumar samkvæmt heimildum Goal. Félagið ætlaði að gefa Pochettino annað ár að minnsta kosti með liðið þrátt fyrir að hann hafi misst af deildartitlinum í Frakklandi og Meistaradeildinni.
Pochettino er á samning hjá PSG til ársins 2022 og vill ólmur komast í burtu en mun þó virða óskir félagsins ef hann verður beðinn um að vera áfram.
Tottenham og Real Madrid eru sögð hafa mikinn áhuga á Pochettino en bæði lið eru án þjálfara.
Tottenham rak Mourinho fyrr á árinu og hefur Ryan Mason verið bráðabirgðarstjóri félagsins frá þeim tíma. Daniel Levy er sagður ætla að leggja allt í sölurnar til þess að fá Pochettino aftur en hann viðurkenndi í viðtali um daginn að það hafi verið hans stærstu mistök á ferlinum að reka Pochettino á sínum tíma.
Þá er Pochettino efstur á listanum hjá Real Madrid eftir að Zinedine Zidane sagði upp hjá félaginu á dögunum samkvæmt Marca.