Mikið hefur verið rætt og ritað um vandræði Stjörnunnar í upphafi tímabilsins í Pepsi Max-deild karla. Liðið er í neðsta sæti deildarinnar eftir sex umferðir. Lúðvík Jónasson segir að Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ muni ekki sætta sig við það að liðið falli um deild á kosningaári. Málið var rætt í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í gær.
,,Hvað er að í Garðabænum?“ Spurði Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi, í þætti gærdagsins er vandræði Stjörnunnar voru rædd.
Lúðvík telur að vandræði Stjörnunnar séu margþætt og að það þurfi að taka til innan félagsins.
,,Ég held að það sé bara mjög mikið að. Mér finnst ekkert skipulag á liðinu. Þeir voru betri en KA í síðasta leik. Það er bara andleysi. Það er engin stemmning. Ég held að það sé bara almennt í klúbbnum. Mér finnst líka lítil stemmning í körfuboltaliðinu. Ég er nú búinn að fara á alla þá leiki. Ég held að þetta sé bara svolítið stjórnin. Ef einhver ætlar að axla ábyrgð þá þarf stjórnin að víkja. Þeir þurfa bara að segja af sér, bera ábyrgð á þessu og fá nýja menn inn en það er ekkert víst að einhverjir nýjir menn vilji taka við þessu búi.“
Hjörvar velti því upp hvort að það væri ekki kominn tími til að sætta sig við eitt til tvö mögur tímabil til þess að stokka upp í hlutunum. Lúðvík sagði þá að það kæmi í það minnsta ekki til greina að sætta sig við fall úr deildinni. Hann nefndi til að mynda að Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ gæti ekki horft upp á það á kosningaári.
,,Ég meina. þú verður að halda þér uppi. Við erum að horfa á það núna að það er ekki sex stiga leikur á móti Fylki. Það er bara dauðaleikur. Ef að þeir tapa þessu þá falla þeir í Lengjudeildina. Hvað heldurðu að Sjallarnir í Garðabænum geri þá. Ég meina, það er kosningaár, það er verið að vígja eina flottustu íþróttahöll á Íslandi á kosningaárinu, allt planað og þú ert með lið í Lengjudeildinni. Til hamingju. Það virkar ekki í Mónakó. Gleymdu þessari hugmynd.“
Stjarnan mætir Fylki í Pepsi Max-deildinni á sunnudag. Þar freistar liðið þess að ná í sinn fyrsta sigur á leiktíðinni.
Smelltu hér til að hlusta á þátt Dr. Football.