Barcelona eru líklegastir til að hreppa Gianluigi Donnarumma á frjálsri sölu í sumar. Paris Saint-Germain hefur einnig áhuga. Juventus hefur þá verið nefnt til sögunnar en samkvæmt frétt Sky Sport Italia ætla þeir að halda sig við Wojciech Szczesny.
Það var greint frá því í vikunni að Donnarumma myndi ekki framlengja samningi sínum við AC Milan. Hann rennur út í sumar. Þrátt fyrir að Barcelona sé fyrir með þýska landsliðsmarkvörðinn Marc-Andre ter Stegen í sínum röðum hafa þeir mikinn áhuga á að ná í Donnarumma.
PSG gerði nýverið nýjan samning við Keylor Navas en eru þó með auga á markverðinum unga.
Mörgum þótti liggja í augum uppi að Juventus myndi sækja Donnarumma yfir til Tórínó þegar ljóst var að hann yrði laus í sumar. Nú er hins vegar útlit fyrir að Max Allegri, sem er ný tekinn við liðinu á nýjan leik, vilji hafa Szczesny í markinu hjá sér.
Mino Raiola er umboðsmaður Donnarumma og er talið að hann krefjist 10 milljóna evra í árslaun fyrir hönd markvarðarins. Sú upphæð gæti verið fráhrindandi fyrir einhver lið vegna fjárhagsástandsins víða í kjölfar kórónuveirufaraldursins.