Rúnar Páll Sigmundsson fyrrum þjálfari Stjörnunnar vildi kaupa Pétur Theodór Árnason framherja frá Gróttu í vetur en fékk það ekki í gegn. Frá þessu greinir hlaðvarpsþátturinn The Mike Show.
Pétur Theodór hefur raðað inn mörkum fyrir Gróttu en Stjörnunni vantar framherja til að skora mörk fyrir sig, Rúnar taldi Pétur geta leyst það hlutverk en stjórn Stjörnunnar vildi ekki ganga svo langt.
„Maður sér að það vantar einhvern til að skora mörk, þú gerir ekkert í fótbolta nema að skora mörkin. Ég hef það samkvæmt áreiðanlegum heimildum að Rúnar Páll hafi í vetur gert allt til að fá Pétur Theodór úr Gróttu í Stjörnuna. Hann er búinn að sanna það í Lengjudeildinni að hann getur skorað,“ sagði Mikael Nikulásson sérfræðingur þáttarins.
Mikael segir að Grótta hafi viljað 2 milljónir fyrir Pétur en Stjarnan tók það ekki í mál.
„Grótta vildi 2 milljónir en Stjarnan bauð 750 þúsund krónur og ekki aur í viðbót. Það var farið á móti Rúnari þar, þeir týmdu því ekki.“