Ole Gunnar Solskjær stjóri Manchester United ætlar að kaupa nokkra leikmenn í sumar eftir vonbrigði gærdagsins. Villarreal varð sigurvegari Evrópudeildarinnar árið 2021 eftir sigur á Manchester United í vítaspyrnukeppni í gær. Gerard Moreno kom Villarreal yfir á 29. mínútu leiksins. Hann kom boltanum þá í netið eftir aukaspyrnu Daniel Parejo. Man Utd hafði verið meira með boltann á þessum tímapunkti leiksins en ekki ógnað marki andstæðinga sinna mikið. Staðan var 1-0 eftir fremur rólegan fyrri hálfleik.
Edinson Cavani jafnaði metin fyrir Man Utd eftir tíu mínútur í seinni hálfleik. Boltinn hrökk þá fyrir hann eftir að Scott McTominay hafði komið fætinum inn í skot Marcus Rashford. Cavani var fljótur að átta sig og kom boltanum í netið. 1-1. Leikmenn Man Utd voru klárlega ferskari aðilinn á vellinum eftir þetta og voru líklegra liðið til að finna sigurmark í venjulegum leiktíma. Allt kom þó fyrir ekki og því þurfti að framlengja.
Hvorugu liðinu tókst að skora í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Í henni virtist enginn ætla að klúðra. Það var ekki fyrr en David De Gea klikkaði á elleftu spyrnu Man Utd að úrslitin réðust. Þá höfðu allir aðrir leikmenn tekið spyrnu í vítaspyrnukepnninni. Villarreal vann vítaspyrnukeppnina 11-10! Þetta var lengsta vítaspyrnukeppni í sögu Evrópukeppna
„Við verðum að verða betri, það er svo einfalt. Við höfum gert vel á þessu tímabili að komast í gegnum erfiða byrjun og ekkert undirbúningstímabil. Við töpuðum þremur af fyrstu sex leikjum tímabilsins. Við gerðum okkar besta í deildinni og komust nálægt toppnum. Við komumst í úrslitaleik hérna en til að tímabilið sé gott þarf að vinna úrslitaleikinn,“ sagði Solskjær.
Stjórinn vill fá 2-3 leikmenn sem styrkja byrjunarlið félagsins í sumar.
„Við verðum að gera betur, leggja meira á okkur. Fá tvo til þrjá leikmenn sem styrkja byrjunarliðið okkar og hópinn þá í heild. Það er mikilvægt fyrir næsta skref.“