Takkaskór fyrrum knattspyrnumannsins Adam Johnson voru nýlega seldir á eBay. Johnson er dæmdur kynferðisafbrotamaður og hefur salan því verið harðlega gagnrýnd.
Árið 2016 var Johnson rekinn frá Sunderland eftir að hann viðurkenndi að hafa stundað kynlíf með 15 ára gamalli stelpu. Hann hafði árið áður verið kærður fyrir athæfið. Johnson var 28 ára þegar atvikið átti sér stað. Hann var dæmdur í sex ára fangelsi en var sleppt eftir að hafa afplánað þrjú.
Skórnir sem seldir voru á eBay höfðu verið notaðir af Johnson í nágrannaslag Sunderland gegn Newcastle árið 2015. Það var eftir að hann hafði verið handtekinn, grunaður um óeðlileg samskipti við stúlkuna. Seljandinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að setja skóna á sölu.
Upprunalega verðið á eBay voru 10 pund, um 1700 íslenskar krónur. Seljandinn fékk þó fjórtán tilboð í þá og tókst því að fimmfalda verðið.
,,Ég myndi borga 50p (85 kr) svo ég gæti kveikt í þeim,“ skrifaði einn notandi á eBay um sölunda á skónum.
Johnson er í dag 33 ára gamall. Hann hefur ekki spilað knattspyrnu eftir að hafa verið dæmdur fyrir brotið gegn stúlkunni ungu.