César Azpilicueta fékk beint rautt spjald í lokaleik Chelsea í ensku úrvalsdeildinni gegn Aston Villa. Chelsea áfrýjaði strax dómnum og í dag var það staðfest að enska knattspyrnusambandið hefur dregið spjaldið til baka.
Azpilicueta fékk spjaldið fyrir að slá Jack Grealish undir lok leiks. Eftir áfrýjun var niðurstaðan sú að þetta hefði verið óviljaverk hjá spænska landsliðsmanninum.
Azpilicueta hefði byrjað næsta tímabil í þriggja leikja banni en sleppur nú við það. Leiknum lauk með 2-1 sigri Aston Villa en þar sem Leicester tapaði sínum leik komst Chelsea í Meistaradeildina.
Chelsea mætir Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu næsta laugardag. Eftir það tekur EM við hjá Azpilicueta en hann var valinn í spænska landsliðshópinn.