Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, var ekki valinn í spænska landsliðshópinn fyrir Evrópumót landsliða í sumar.
Ramos er leikjahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi með 180 leiki á bakinu. Hann hefur þó verið mikið meiddur á leiktíðinni og aðeins spilað 21 leik fyrir Real Madrid á leiktíðinni.
,,Þetta var mjög erfið ákvörðun en Ramos hefur ekki getað æft eða spilað mikið undanfarið,“ sagði Luis Enrique, landsliðsþjálfari Spánar, á blaðamannafundi.
,,Ég hefði viljað hafa Ramos í hópnum en mér fannst það ekki skynsamlegt þar sem hann hefur í raun ekkert getað keppt.“
Ramos spilaði í undanúrslitum Meistaradeildarinnar gegn Chelsea á dögunum. Hann var hægur og leit út fyrir að vera langt frá sínu besta.
Eric Garcia, miðvörður Manchester City, var valinn í hópinn þrátt fyrir að hafa aðeins byrjað einn leik í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Þá var Aymeric Laporte valinn. Hann skipti yfir í spænska landsliðið á dögunum þrátt fyrir að hafa leikið fyrir yngri landslið Frakklands.