Ítalska stórliðið AC Milan ætlar sér að semja endanlega við Fikayo Tomori. Hann er á láni hjá félaginu frá Chelsea eins og er. Þá munu þeir taka ákvörðun fljótlega er varðar Diogo Dalot, á láni frá Manchester United og Brahim Diaz, á láni frá Real Madrid. Fabrizio Romano greinir frá.
Tomori spilaði 17 leiki fyrir Milan í Serie A eftir að hafa komið til félagsins í janúar. Miðvörðurinn skoraði eitt mark. Milan er nú að vinna í því að klára kaup á leikmanninum. Milan hefur rétt til þess að kaupa hann frá Chelsea á 28 milljónir evra.
Bakvörðurinn Dalot kom til Milan á láni síðasta haust. Hann spilaði 21 leik í Serie A á leiktíðinni og skoraði eitt mark. Diaz kom einnig til félagsins í haust. Hann skoraði fjögur mörk í 27 leikjum í Serie A.
Milan hefur ekki tekið ákvörðun varðandi það hvort þeir ætli að reyna að semja endanlega við leikmennina en munu gera það á næstu dögum.
Romano greinir einnig frá því að unnið sé að því að endursemja við markvörðinn Gianluigi Donnarumma sem og Hakan Calhanoglu.