Brentford og Swansea hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir kalla eftir því að fleiri áhorfendum verði hleypt á úrslitaleik liðanna um sæti í ensku úrvalsdeildinni sem fer fram næsta laugardag á Wembley.
Klúbbarnir eru ósáttir við það að aðeins tíu þúsund áhorfendur verði leyfðir á leiknum en 21. þúsund manns voru á Wembley þegar Leicester sigraði Chelsea í úrslitaleik FA bikarsins fyrr í mánuðinum.
Formaður Brentford, Jon Varney, segir ákvörðunina fáránlega.
„Okkur finnst það ósanngjarnt að fyrir aðeins nokkrum dögum var yfir 20. þúsund manns hleypt á úrslitaleik FA bikarsins og viðræður voru í gangi um að halda úrslitaleik Meistaradeildarinnar á sama velli með jafnmörgum áhorfendum.“
„Það er fáránlegt að úrslitaleikurinn um sæti í ensku úrvalsdeildinni fái helmingi færri áhorfendur.“
Norwich og Watford hafa nú þegar tryggt sér sæti í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili og ræðst það á laugardag hvort að Brentford eða Swansea bætist við.