Juventus þurfti nauðsynlega á sigri að halda á sunnudag og vakti það því mikla athygli þegar Pirlo ákvað að nota Cristiano Ronaldo ekki í þeim leik.
Juventus vann Bologna 4-1 án stjörnuframherjans sem er markahæsti maður deildarinnar og náðu með sigrinum að tryggja sér Meistaradeildarsæti þar sem Napoli gerði jafntefli í sínum leik.
Þetta hefur vakið upp vangaveltur um framtíð Cristiano Ronaldo hjá ítalska stórliðinu. Hann hefur verið orðaður við endurkomu til Manchester United samkvæmt frétt Daily Mail og þá er PSG einnig í umræðunni.
Juventus heldur því fram að Pirlo og Ronaldo verði báðir áfram hjá klúbbnum á næsta tímabili en talið er að Juventus gæti þurft að losa portúgölsku stjörnunna vegna launapakkans.
Í febrúar greindi stjórn Juventus frá því að félagið hefði tapað rúmum 100 milljónum evra á fyrri helmingi tímabilsins vegna Covid-19. Ronaldo fær dágóða summu á viku, fjórfalt meira en sá sem er næst-launahæstur í deildinni. Ronaldo á eitt ár eftir af samningi sínum við Juventus.
Ronaldo setti færslu á Instagram í dag þar sem hann gerði upp tímabilið. Þar segist hann hafa unnið allt sem hann ætlaði sér hjá Juventus:
„Með þessum áfanga, náði ég markmiði sem ég setti mér þegar ég kom til Ítalíu: að vinna deildina, bikarinn og Ofurbikarinn ásamt því að verða markahæstur og valinn besti leikmaður deildarinnar,“ sagði Ronaldo í færslu á Instagram.