Sergio Aguero er sagður ósáttur við það hvernig Pep Guardiola kom fram í kringum brottför leikmannsins frá Manchester City. Þetta kemur fram í Daily Mail.
Framherjinn lék sinn síðasta leik fyrir Man City í gær er liðið vann 5-0 sigur á Everton. Aguero kom inn á sem varamaður og skoraði tvö mörk fyrir liðið.
Það kom fram fyrr í vor að Aguero væri á leið frá félaginu þegar samningur hans rennur út í sumar. Það er talið nánast öruggt að hann sé á leið til Barcelona. Guardiola er sagður hafa tekið þá ákvörðun um að gefa Argentínumanninum ekki nýjan samning.
Heimildamenn sem eru nánir Aguero segja að leikmaðurinn sé sár með það hvernig málið var höndlað. Hann sé einnig sár yfir því að þurfa að yfirgefa félgagið yfirhöfuð. Það kemur einnig fram að Guardiola og Aguero hafi ekki talað saman í nokkrar vikur eftir að tilkynnt var um brottför framherjans. Þá er einnig talið að Aguero hafi verið meiðslalaus síðustu vikur. Þrátt fyrir það var hann skilinn eftir utan hóps í fjórum af síðustu sjö leikjum City í úrvalsdeildinni.
Þó svo að þessar sögusagnir séu á kreiki þá hrósuðu þeir hvorum öðrum í hástert eftir leikinn gegn Everton í gær. Guardiola átti til að mynda erfitt með að ráða við tilfinningar sínar er hann ræddi Aguero í viðtali.