Tveir Íslendingar léku með liðum sínum í lokaumferð dönsku úrvalsdeildarinnar í dag.
Aron Elís Þrándarson spilaði allan leikinn með OB er liðið vann 4-0 sigur á Horsens. Stoðsending hans kom í fyrsta marki liðsins. OB lýkur tímabilinu í níunda sæti. Þess má geta að Sveinn Aron Guðjohnsen sat allan tímann á varamannabekk OB í dag.
Frederik Schram stóð þá í marki Lyngby í 2-2 jafntefli gegn Vejle. Lyngby er fallið niður í dönsku B-deildina en það var ljóst fyrir leikinn í dag.
Aron Elís er samningsbundinn OB til ársins 2023 en samningur Frederik rennur út eftir næstu leiktíð.