Edouard Mendy, markvörður Chelsea, fór meiddur af velli í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Stjóri Chelsea segir að allt verði gert svo að Mendy geti verið klár fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Markvörðurinn meiddist í aðdraganda fyrra marks Aston Villa í dag. Leiknum lauk 2-1 fyrir Villa. Kepa Arrizabalaga leysti hann af.
Chelsea mætir Manchester City í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á laugardaginn. Það er því virkilega mikilvægt fyrir þá að hafa markvörðinn sinn, sem hefur verið frábær á leiktíðinni, heilan.
,,Við munum fá meiri upplýsingar á morgun um það sem er í gangi. Við sjáum hvort það sé möguleiki og ef hann er til staðar munum við gera allt til þess að hafa hann í markinu á laugardaginn,“ sagði Thomas Tuchel, stjóri Chelsea, eftir leikinn í dag.
Arrizabalaga hefur fengið töluverða gagnrýni fyrir frammistöður sínar með Chelsea frá því hann kom til liðsins árið 2019. Stuðningsmenn munu því án efa krossa fingur upp á það að Mendy verði klár í stærsta leik tímabilsins á laugardag.