Íslendingalið hafa verið í eldlínunni í Þýskalandi og Svíþjóð það sem af er degi.
Alexandra og Karólína komu við sögu
Alexandra Jóhannsdóttir kom inn á sem varamaður á 80. mínútu í 2-3 tapi Frankfurt gegn Wolfsburg í þýsku Bundesligunni. Frankfurt er í sjötta sæti, um miðja deild, með 30 stig þegar ein umferð er eftir.
Í sömu deild spilaði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir einnig um tíu mínútur í 0-4 sigri gegn Bayer Leverkusen. Bayern er á toppi deildarinnar með 2 stiga forskot á Wolfsburg fyrir lokaumferðina. Liðið mætir einmitt Frankfurt þar og vegna mjög jákvæðrar markatölu mun jafntefli duga til þess að verða meistari.
Jafnt í Íslendingaslag
Kristianstad og AIK gerðu 1-1 jafntefli í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni. Sif Atladóttir spilaði allan leikinn fyrir Kristianstad og Hallbera Guðný Gísladóttir gerði slíkt hið sama fyrir AIK. Sveindís Jane Jónsdóttir er einnig á mála hjá Kristianstad en er frá vegna meiðsla. Þá er Elísabet Gunnarsdóttir þjálfari liðsins. Lið þeirra er í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig eftir sex leiki. Hallbera og stöllur eru í því níunda með 6 stig.
Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn með Rosengard í 1-0 sigri gegn Pitea. Liðið er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir sex leiki.
Böðvar í banni en Bjarni sá rautt
Böðvar Böðvarsson var ekki með Helsingborg í 0-1 sigri á GAIS í sænsku B-deildinni þar sem hann er í banni. Liðið er í fimmta sæti deildarinnar með 12 stig eftir átta leiki.
Í sömu deild sá Bjarni Mark Antonsson rautt spjald í lok leiks í 1-2 sigri á Östers. Brage er í fjórtánda sæti með 5 stig eftir sjö leiki.