Inter vann stórsigur á Udinese á heimavelli í lokaleik liðanna á tímabilinu í Serie A.
Ashley Young kom heimamönnum yfir á 8. mínútu. Christian Eriksen tvöfaldaði svo forystu þeirra rétt fyrir leikhlé. Staðan í hálfleik var 2-0.
Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik fékk Inter víti. Lautaro Martinez steig á punktinn og skoraði. Ivan Perisic kom Inter í 4-0 á 64. mínútu. Fimmta markið skoraði svo Romelu Lukaku um átta mínútum síðar. Roberto Pereyra klóraði í bakkann fyrir Udinese úr vítaspyrnu þegar um tíu mínútur lifðu leiks. Lokatölur voru 5-1.
Það er löngu orðið staðfest að Inter sé orðið meistari. Þeir ljúka tímabilinu með 91 stig. Glæsilegur árangur Antonio Conte, stjóra liðsins. Udinese er með 40 stig í fjórtánda sæti. Þeir geta í versta falli dottið niður í það fimmtánda áður en lokadagurinn er úti.