Mirror hefur tekið saman lista yfir þær stöður á vellinum sem Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, gæti horft í að leysa í sumar. Horft er til þess hvort að losa þurfi leikmenn, bæta við leikmönnum, gefa hlutverkum ungra leikmanna meira vægi og svo framvegis.
Markvarslan
Alisson er auðvitað negldur sem fyrsti kostur í markið hjá Klopp. Það er svo spurning með varamarkverðina. Adrian spilaði töluvert á síðustu leiktíð vegna meiðsla Alisson. Á þeirri sem nú stendur yfir lék hann gegn Aston Villa í 7-2 tapi snemma á tímabilinu. Frammistaða hans þar var ekki upp á marga fiska. Samningur hans rennur út í sumar en Liverpool gæti nýtt sér ákvæði í samningnum sem framlengir hann um eitt ár. Caoimhin Kelleher er einnig á mála hjá félaginu. Hann er 22 ára og þykir efnilegur. Hann gæti verið tilbúinn til þess að taka við varamarkvarðarstöðunni hjá Liverpool og þar með sparað félaginu það að endursemja við Adrian.
Miðvarðastöðurnar
Þessi staða hefur verið erfið fyrir Liverpool á leiktíðinni, aðallega vegna meiðsla. Virgil van Dijk, Joe Gomez og Joel Matip hafa allir verið frá stóran hluta tímabils. Miðjumennirnir Fabinho og Jordan Henderson hafa leyst stöðuna ásamt þeim Rhys Williams og Nat Phillips, sem kallaðir voru upp í aðalliðið. Klopp sótti Ben Davies og Ozan Kabak í janúarglugganum. Sá fyrrnefndi hefur ekki spilað leik fyrir félagið. Sá síðarnefndi er á láni frá Schalke og getur enska liðið keypt hann í lok tímabils. Hann hefur þó einnig glímt við meiðsli.
Ibrahima Konate, hjá Leipzig, hefur verið orðaður mikið við Liverpool undanfarið. Fái þeir hann og endurheimti einnig Van Dijk, Gomez og Matip gætu þeir þurft að losa leikmenn. Phillips gæti nýst í hópnum á næstu leiktíð. Williams er aðeins tvítugur og hefur tíma til að bæta sig. Það er aftur á móti erfiðara að sjá framtíð fyrir Davies, sem verður 26 ára í sumar, hjá félaginu. Svo er spurning hvort að Klopp sjái tilgang í það að eyða 18 milljónum punda (klásúla í lánssamningi) í Kabak.
Miðjan
Georginio Wijnaldum er á förum frá Liverpool. Eftir hjá félaginu verða þó Fabinho, Thiago og Jordan Henderson. Allir verða þeir að teljast líklegir til að vera reglulega í byrjunarliðinu. Einnig eru Alex Oxlade-Chamberlain, James Milner, Naby Keita og Curtis Jones. Þessir þyrftu líklega að berjast fyrir sæti sínu, verði þeir áfram. Milner er þó orðinn 35 ára. Þá eru Keita og Chamberlain oft meiddir. Jones er aðeins 20 ára gamall en er einn efnilegasti leikmaður Liverpool.
Vængirnir
Þrátt fyrir að Mohamed Salah hafi reglulega verið orðaður frá Liverpool á leiktíðinni þá er Klopp bjartsýn á að halda honum. Með honum verður Sadio Mane án efa áfram í byrjunarliðinu. Hann hefur þó ollið vonbriðgum á tímabilinu. Diogo Jota hefur þá verið frábær á leiktíðinni eftir að hafa komið frá Wolves. Liverpool gæti þó þurft einhvern ferskleika í þessar stöður á vellinum. Xherdan Shaqiri gæti verið á förum í sumar sem og Divock Origi, sem getur spilað bæði á vængjunum og sem fremsti maður. Félagið á að vísu einn ungan og mjög spennandi leikmann, Harvey Elliot. Þessi 18 ára gamli leikmaður hefur verið á láni hjá Blackburn á leiktíðinni og staðið sig mjög vel. Hvort að Klopp láti það nægja að gefa honum stærra hlutverk á næstu leiktíð eða ná í nýjan mann á svo eftir að koma í ljós.
Framherji
Þetta er kannski staðan sem Liverpool þarf mest á því að halda að styrkja í sumar. Roberto Firmino hefur aðeins skorað níu mörk í 46 leikjum á leiktíðinni. Einnig er Origi á förum, eins og áður kom fram. Kylian Mbappe hefur af og til verið orðaður við Liverpool en það verður að teljast ólíklegt að hann mæti á Anfield í sumar. Raunhæfari kostir gætu verið Dusan Vlahovic hjá Fiorentina eða Patson Daka hjá RB Salzburg.