Aston Villa vann góðan útisigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni. Tapið er slæmt fyrir síðarnefnda liðið í baráttu um Evrópusæti. Steven Bergwijn kom Tottenham yfir á 8. mínútu leiksins. Villa jafnaði leikinn á 20. mínútu þegar Sergio Reguilon gerði svakalegt sjálfsmark sem Hugo Lloris átti engan möguleika á að verja. Skömmu fyrir leikhlé kom Ollie Watkins gestunum svo yfir. Staðan í hálfleik var 1-2.
Bæði lið hefðu getað bætt við mörkum í seinni hálfleik en allt kom fyrir ekki. Sigur Villa staðreynd. Tottenham er í sjötta sæti deildarinnar með 59 stig. West Ham getur komist upp fyrir þá með sigri gegn WBA í kvöld. Aston Villa er í ellefta sæti með 52 stig.
John Terry aðstoðarþjálfari Aston Villa varð fyrir aðkasti í leiknum, stuðningsmönnum Tottenham er illa við hann eftir feril hans sem leikmaður hjá Chelsea.
Terry ákvað að svara fyrir sig með því að lyfta ímynduðum bikar á loft, var það fast skot á Tottenham sem hefur ekki unnið bikar í 13 ár.
„Stuðningsmenn Tottenham sungu um að Ledley King væri betri en John Terry, Terry snéri sér við og lyfti ímynduðum bikar til að svara fyrir sig,“ skrifar James Olley blaðamaður á Bretlandi.
Spurs fans singing their song about Ledley King being better than John Terry. Terry turns around and holds an imaginary trophy aloft in response.
— James Olley (@JamesOlley) May 19, 2021