Það voru Íslendingar á ferðinni með sínum liðum í Danmörku og Noregi í kvöld.
Bröndby vann góðan 1-2 sigur á AGF í Meistara-hluta (e. championship group) dönsku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir að hafa verið manni færri frá 34. mínútu. Hjörtur Hermannsson spilaði fyrri hálfleikinn með sigurliðinu en þar fékk hann á sig tvær vítaspyrnur. Þá fyrri fékk hann á sig eftir að hafa brotið á Jóni Degi Þorsteinssyni, sem lék allan leikinn með AGF. Að vísu skoruðu heimamenn ekki úr þeirri vítaspyrnu. Bröndby er nú með pálmann í höndunum fyrir lokaumferð deildarinnar. Þeir eru á toppi deildarinnar, stigi á undan Midtjylland. Vinni Hjörtur og félagar Nordjælland á heimavelli í næstu umferð eru þeir orðnir meistarar. AGF er í fjórða sæti, búnir að tryggja sér Evrópusæti.
Rosenborg vann Brann, 3-2, í norsku úrvalsdeildinni. Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn með sigurliðinu. Rosenborg er sem stendur á toppi deildarinnar, með 8 stig eftir fjóra leiki.