Þrír leikir hafa farið fram í ensku úrvalsdeildinni það sem af er kvöldi.
Tottenham að missa af Evrópudeildarsæti?
Aston Villa vann góðan útisigur á Tottenham. Tapið er slæmt fyrir síðarnefnda liðið í baráttu um Evrópusæti.
Steven Bergwijn kom Tottenham yfir á 8. mínútu leiksins. Villa jafnaði leikinn á 20. mínútu þegar Sergio Reguilon gerði svakalegt sjálfsmark sem Hugo Lloris átti engan möguleika á að verja. Skömmu fyrir leikhlé kom Ollie Watkins gestunum svo yfir. Staðan í hálfleik var 1-2.
Bæði lið hefðu getað bætt við mörkum í seinni hálfleik en allt kom fyrir ekki. Sigur Villa staðreynd.
Tottenham er í sjötta sæti deildarinnar með 59 stig. West Ham getur komist upp fyrir þá með sigri gegn WBA í kvöld. Aston Villa er í ellefta sæti með 52 stig.
Gylfi lagði upp og Everton hélt sér á floti í Evrópubaráttunni
Everton tók á móti Wolves á Goodison Park. Leiknum lauk með sigri heimamanna.
Richarlison skoraði mark Everton í 1-0 sigri. Markið skoraði hann í upphafi seinni hálfleiks með skalla eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.
Everton er í áttunda sæti, jafnt að stigum við West Ham og Tottenham, sem eru í sætunum fyrir ofan. West Ham á þó leik til góða. Sjötta sætið gefur þáttökurétt í Evrópudeild og það sjöunda sæti í Conference League.
Willock skoraði enn og aftur í sigri Newcastle
Newcastle tók á móti Sheffield United í þýðingarlitlum leik þar sem heimamenn höfðu betur.
Joe Willock, lánsmaður frá Arsenal, skoraði eina markið í 1-0 sigri. Hann hefur verið sjóðheitur frá því hann kom til Newcastle í janúar.
Newcastle er í fimmtánda sæti með 42 stig. Sheffield United er neðst, með 20 stig og löngu fallið.