Arsenal vann virkilega mikilvægan útisigur á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Þetta var síðasti heimaleikur Roy Hodgson við stjórvölinn hjá Palace.
Nicolas Pepe kom Arsenal yfir þegar um tíu mínútur lifðu fyrri hálfleiks með marki eftir fyrirgjöf Kieran Tierney. Staðan í hálfleik var 0-1.
Um miðbik seinni hálfleiks jafnaði Christian Benteke fyrir heimamenn með skallamarki. Það stefndi í jafntefli þegar Gabriel Martinelli skoraði fyrir Arsenal í uppbótartíma. Martin Ödegaard lyfti boltanum þá inn fyrir vörn Palace og Brasilíumaðurinn gerði vel í að koma boltanum í netið. Nicolas Pepe gulltryggði svo sigurinn með öðru marki sínu seint í uppbótartímanum. Lokatölur 1-3.
Arsenal er í níunda sæti með 58 stig. Tottenham, West Ham og Everton eru í sætunum fyrir ofan, öll með stigi meira. Það verður því æsispennandi barátta um síðustu Evrópusætin í lokaumferðinni. Palace er í þrettánda sæti með 44 stig.