Chelsea tók á móti Leicester í stórleik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni en leikurinn var afar mikilvægur fyrir bæði lið sem eru í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti. Leiknum lauk með 2-1 sigri Chelsea.
Chelsea átti ekki góðan leik þegar liðin mættust síðast í úrslitaleik FA bikarsins um helgina en liðið byrjaði afar vel í dag. Liðið átti 11 skot að marki í fyrri hálfleik og stjórnaði leiknum frá a-ö. Timo Werner kom knettinum tvisvar í netið í fyrri hálfleik en þau voru bæði dæmd af, annað fyrir rangstöðu og hitt fyrir að hafa handleikið boltann.
Heimamenn komu enn betur stilltir inn í seinni hálfleik og tók það Rudiger aðeins þrjár mínútur að brjóta ísinn en honum finnst greinilega gaman að skora gegn Leicester en síðustu þrjú mörk Rudiger í deildinni hafa einmitt komið gegn þeim.
Á 65. mínútu fékk Chelsea vítaspyrnu og skoraði Jorginho örugglega úr spyrnunni og tvöfaldaði þar með forystu heimamanna.
Iheanacho, sem hefur verið afar góður fyrir Leicester á tímabilinu, minnkaði muninn tíu mínútum síðar en það dugði ekki til og sigur Chelsea staðreynd.
Þetta þýðir það að Chelsea fer upp í 3. sæti deildarinnar með 67 stig. Leicester er í 4. sæti með 66 stig og Liverpool fylgir á eftir í 5. sæti með 63 stig, en þeir eiga þó leik til góða.
Chelsea 2 – 1 Leicester
1-0 Rudiger (´48)
2-0 Jorginho (´66)
2-1 Iheanacho (´76)