Keflavík tók á móti KA í 4. umferð Pepsi-Max deildar karla í kvöld. Leiknum lauk með 1-4 sigri KA.
Ásgeir kom gestunum yfir þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum eftir stoðsendingu frá Andra Fannari Stefánssyni. Keflvíkingar jöfnuðu stuttu síðar og var það Ástbjörn Þórðarsson sem skoraði það með skoti af stuttu færi eftir baráttu í teignum.
Gestirnir svöruðu því fljótt og komust aftur yfir aðeins þremur mínútum síðar. Þar var Ásgeir aftur á ferðinni en hann skoraði með skalla eftir sendingu frá Hallgrími Mar.
Undir lok fyrri hálfleiks fékk KA vítaspyrnu og steig Hallgrímur á punktinn. Sindri varði spyrnuna frábærlega og því var Keflavík enn inni í leiknum í hálfleik.
Seinni hálfleikur var nokkuð áþekkur þeim fyrri og kom Hallgrímur gestunum í 1-3 á 62. mínútu með flottu skoti og Elfar Árni gulltryggði sigurinn undir lok leiks með flottu marki eftir stoðsendingu frá Hallgrími Mar.
Frábært gengi KA heldur því áfram en liðið hefur nú unnið þrjá og gert eitt jafntefli í fyrstu fjórum leikjunum.
Keflavík 1 – 4 KA
0-1 Ásgeir Sigurgeirsson (´15)
1-1 Ástbjörn Þórðarsson (´22)
1-2 Ásgeir Sigurgeirsson (25)
1-3 Hallgrímur Mar Steingrímsson (´62)
1-4 Elfar Árni Aðalsteinsson (´90)