Íslendingar hafa verið í eldlínunni um alla Evrópu síðustu klukkustundirnar. Hér er stutt yfirferð fyrir það sem hefur verið í gangi:
Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði Bröndby og spilaði 60 mínútur í 2-1 tapi gegn FCK í efri hluta (e. championship group) dönsku úrvalsdeildarinnar. Lið hans er í öðru sæti með 55 stig, tveimur stigum frá toppnum, þegar tvær umferðir eru eftir.
Guðlaugur Victor Pálsson spilaði allan leikinn fyrir Darmstadt í 5-1 sigri á Heidenheim í þýsku B-deildinni. Ein umferð er eftir og er Darmstadt í áttunda sæti með 48 stig.
Guðný Árnadóttir var í byrjunarliði Napoli í markalausu jafntefli gegn Verona í Serie A. Hún fór þó meidd út af eftir 25 mínútur. Napoli er stigi fyrir ofan fallsæti fyrir lokaumferðina.
Elías Rafn Ólafsson stóð í marki Fredericia sem tapaði 2-1 gegn Helsingör í dönsku B-deildinni. Liðin leika í efri hluta (e. promotions group) deildarinnar eftir að henni var skipt upp. Fredericia er í fimmta sæti með 44 stig.
Viðar Örn Kjartansson byrjaði inn á og skoraði fyrir Valarenga í 1-2 tapi gegn Kristiansund í norsku úrvalsdeildinni. Brynjólfur Willumsson var þá í byrjunarliði sigurliðsins. Hann spilaði um 70 mínútur. Valarenga er með 4 stig eftir þrjá leiki en Kristansund hefur 3 stig.
Samúel Kári Friðjónsson byrjaði inn á fyrir Viking og spilaði rúman klukkutíma í 0-1 tapi gegn Tromsö í sömu deild. Adam Örn Arnarsson kom inn á sem varamaður í lokin fyrir Tromsö. Adam og félagar eru með 4 stig eftir þrjár umferðir. Viking er með 3 stig.
Berglind Rós Ágústsdóttir var í byrjunarliði Örebro í 0-2 sigri gegn Pitea í sænsku úrvalsdeildinni. Cecilía Rán Rúnarsdóttir sat á varamannabekk liðsins. Örebro er í sjötta sæti með 7 stig eftir fimm leiki.