Tottenham vann góðan 2-0 sigur gegn Wolves á heimavelli sínum í öðrum leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Harry Kane kom heimamönnum yfir rétt fyrir leikhlé. Pierre-Emile Hojbjerg stakk boltanum þá inn fyrir vörn Úlfanna þar sem Kane var mættur til að skora. Markið kom rétt eftir að Conor Coady hafði bjargað á línu frá Kane. Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir Tottenham.
Heimamenn voru líklegir til að bæta við í upphafi seinni hálfleiks og markið kom eftir rúman klukkutíma leik. Þá skoraði Hojbjerg er hann náði frákasti eftir að Rui Patricio hafði varið skot Gareth Bale.
Tottenham sigldi leiknum í höfn eftir þetta. Lokatölur 2-0. Þeir eru í sjötta sæti deildarinnar, Evrópudeildarsæti, með 59 stig. Þeir eru 5 stigum á eftir Chelsea, sem er í síðasta Meistaradeildarsætinu, þegar tvær umferðir eru eftir. Wolves siglir lignan sjó, eru í tólfta sæti með 45 stig.