Aðeins eitt stig skilur að Lille og Paris Saint-Germain fyrir lokaumferðina í Ligue 1 í Frakklandi fyrir lokaumferðina. Heil umferð fór fram í kvöld.
PSG vann öruggan 4-0 sigur á Reims á heimavelli. Neymar skoraði fyrsta markið úr víti snemma leiks og Kylian Mbappe mark númer tvö tíu mínútum síðar. Marquinhos og Moise Kean bættu svo við mörkum í seinni hálfleik.
Lille missteig sig gegn Saint-Etienne á heimavelli sínum á sama tíma. Leiknum þar lyktaði með markalausu jafntefli.
Monaco vann Rennes 2-1 á heimavelli og á enn tölfræðilegan möguleika á titlinum, þó mjög lítinn. Þeir þyrftu að vinna í lokaumferðinni, treysta á að Lille tapi og vinna upp sex marka forskot sem Lille hefur á þá á markatölu.
Lyon vann 2-5 útisigur á Nimes en á þó ekki lengur tölfræðilegan möguleika á titlinum.
Lille er í efsta sæti með 80 stig fyrir lokaumferðina. PSG er með stigi minna í öðru sæti. Monaco er svo í því þriðja með 77 stig og Lyon í fjórða með 76 stig. Efstu tvö liðin fara beint í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og liðið í þriða sæti í umspil.
Lokaumferðin hjá toppliðunum
Brest – PSG
Lens – Monaco
Lyon – Nice
Angers – Lille