Paul Pogba, stjarna Manchester United segir að N’Golo Kante, leikmaður Chelsea og liðsfélagi hans hjá franska landsliðinu, svindli oft á tíðum þegar þeir spila borðspil saman.
Kante hefur verið frábær síðan hann kom inn í enska boltann árið 2015, fyrst með Leicester og svo með Chelsea. Hann er þekktur fyrir að vera einn sá allra hógværasti í boltanum og er þekktur fyrir allt annað en stjörnustæla. Pogba segir þó að hann muni gera hvað sem er til þess að vinna.
,,Hann svindlar oft í borðspilum. Ég er að segja satt, hann svindlar,“ sagði Pogba í viðtali við BeIN Sports.
,,Hann segir að hann svindli ekki en hann gerir það. Hann er klár strákur en þetta er allt í lagi. Þú getur ekki annað en elskað hann.“ Pogba bætti svo við að Kante væri elskulegasti knattspyrnumaður í sögunni.
Hann hrósaði einnig hæfileikum samlanda síns inni á vellinum. ,,Hann hefur allt. Hann er tæknilega góður, með mikla sendingagetu og er úti um allt á vellinum.“