Barcelona er Evrópumeistari í fyrsta sinn í kvennaflokki eftir stórsigur á Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld.
Barca valtaði yfir Chelsea í upphafi leiks og sá til þess að hann yrði í raun aldrei spennandi. Þær komust yfir strax á 1. mínútu þegar Melanie Leupolz skoraði sjálfsmark. Barca fékk svo víti þegar tæpur stundarfjórðungur var liðinn. Á punktinn steig Alexia Putellas og skoraði framhjá Ann-Katrin Berger í marki Chelsea. Á 21. mínútu bætti Aitana Bonmati við þriðja markinu áður en Caroline Graham Hansen gerði það fjórða um stundarfjórðungi síðar. Staðan í hálfleik var 4-0!
Börsungar sigldu leiknum svo einfaldlega í höfn í seinni hálfleik. Enda með ansi gott forskot þegar inn í hann var komið. Stórsigur Barcelona staðreynd.
Eins og segir hér ofar er þetta í fyrsta sinn sem Barcelona vinnur þennan titil. Emma Hayes og hennar konur í Chelsea þurfa að sætta sig við silfrið í þetta sinn. Þetta var þeirra fyrsti úrslitaleikur í keppninni.