Samkvæmt fjölmiðlum á Spáni mun Zinedine Zidane hætta sem þjálfari Real Madrid eftir yfirstandandi tímabil.
Zidane hefur þjálfað Real Madrid frá því í janúar 2016, fyrir utan tíu mánaða tímabil frá maí 2018 til mars 2019. Á þessum tíma hefur hann unnið þrettán stóra titla, þar af þrja Evrópumeistaratitla.
Tímabilið sem nú stendur yfir hefur ekki gengið sérstaklega vel hjá Zidane og liðinu. Real Madrid datt út í undanúrslitum Meistaradeildarinnar á dögunum og virðist vera að missa af spænska meistaratitlinum. Titlalaust tímabil hjá Real Madrid væri almennt álitið óásættanlegt.
Vegna velgengni Zidane á árum áður hefðu margir þó búist við því að hann myndi taka annað tímabil með liðinu. Nú er hins vegar útlit fyrir að hann muni sjálfur stíga frá borði.