Tindastóll vann ÍBV á Sauðárkróksvelli í 3. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í leik sem lauk nýlega. Þetta var fyrsti sigurleikur Tindastóls í efstu deild.
María Dögg Jóhannesdóttir kom heimakonum yfir eftir rúman hálftíma leik þegar hún potaði boltanum í markið eftir aukaspyrnu. Staðan í hálfleik var 1-0.
Snemma í seinni hálfleik tvöfaldaði Hugrún Pálsdóttir forystu Tindastóls þegar hún náði frákasti eftir skot liðsfélaga síns og setti boltann í netið.
Þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks minnkaði Clara Sigurðardóttir muninn fyrir Eyjakonur með flottu marki. Nær komust þær þó ekki, lokatölur 2-1 fyrir Tindastól.
Tindastóll er með 4 stig eftir leikinn í dag. Þær hafa þó aðeins leikið tvo leiki. ÍBV er með 3 stig eftir þrjá leiki. Ásamt leiknum í dag þá töpuðu þær fyrir Þór/KA í fyrstu umferð. Í millitíðinni unnu þær Breiðablik. Óútreiknanleg deild.