Sindri Snær Magnússon leikmaður ÍA braut tvö rifbein í leik liðsins gegn FH í gær. Langt hlé var á leiknum þegar hlúa þurfti að Sindra en sjúkrabíll sótti hann Í Kaplakrika. FH tók á móti ÍA í 3. umferð Pepsi Max-deildar karla í gær. Heimamenn unnu að lokum stóran sigur gegn tíu leikmönnum gestanna. Skagamenn komust yfir með marki frá Gísla Laxdal Unnarssyni. Það gerði hann eftir fyrirgjöf frá Elias Tamburini.
Eftir tæpan hálftíma leik urðu gestirnir svo manni færri. Þá fékk Hákon Ingi Jónsson heimskulegt rautt spjald. Hann braut þá á Gunnari Nielsen, markverði FH, á gulu spjaldi. FH jafnaði strax í kjölfarið þegar Óttar Bjarni Guðmundsson gerði sjálfsmark. Staða í hálfleik var 1-1.
Sindri Snær Magnússon braut 2 rifbein í leiknum gegn FH í gærkvöldi.
Óskum Sindra góðan bata 💛🖤
— ÍA Akranes FC (@ia_akranes) May 14, 2021
Gestunum tókst að halda FH í skefjum allt þar til á 82. mínútu. Þá skoraði Matthías Vilhjálmsson. Í kjölfarið var ekki aftur snúið fyrir Skagamenn. Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði þriðja mark heimamanna á 88. mínútu og kláraði leikinn endanlega. Steven Lennon og Vuk Oskar Dimitrijevic bættu svo við mörkum í uppbótartíma. Lokatölur 5-1.
Atvikið þegar Sindri brotnaði er hér að neðan frá Stöð2 Sport.